Sápugerð
Sápugerð
Sápugrunnarnir frá okkur eru frábær leið til að framleiða sápur heima þar sem búið er að forvinna sápuna og því þarf ekki að vinna með lút eins við aðra sápugerð. Sápugerð úr sápugrunni (“melt and pour”) er því skemmtileg, fljótleg og örugg leið til að framleiða sápur heima.
Ótal möguleikar.
Sápugrunnarnir sem við bjóðum upp á innihalda gjarnan olíur, mjólk eða aloe vera sem hafa húðmýkjandi eiginleika, en einnig er hægt að prófa sig áfram og bæta við eigin olíum eða smyrslum. Það þarf aðeins að passa upp á magnið sem bætt er í svo sápan haldi hreinsandi eiginleikum sínum, en auðvelt er að finna upplýsingar um það á netinu. Einnig er hægt að bæta í leir, valmúafræum, sykri, höfrum, kaffi og fleiru til að búa til skrúbba sem hreinsa dauðar húðfrumur en mýkja um leið húðina.
Þurrkuð blóm og jurtir eru einnig skemmtileg viðbót og gefa fallegt náttúrulegt útlit. Athugið að þurrkuð blóm og jurtir verða með tímanum brún ef þau eru hrærð beint inn í sápuna, en fallegt er að bæta þeim ofan á sem skraut þegar búið er að hella í mót. Við bjóðum til sölu náttúruleg litarefni úr steinefnum sem gaman er að bæta í, en einnig er hægt að nota ýmislegt úr eldhúsinu heima, til dæmis túrmerik, til að framkalla fallegan lit í sápurnar. Hægt er að nota ýmis ílát til að hella sápugrunninum í. Við seljum hér á síðunni sílikonform sem eru ætluð í sápugerð en einnig er hægt að nota ýmis önnur bökunarform með fallegu mynstri, helst þó úr sílioni þar sem það er auðveldast að ná sápunum úr þeim þegar þær hafa kólnað.
Ilmblöndur
Mikilvægt er að huga að því að ilmblöndur og ilmkjarnaolíur eru ekki það sama. Ilmblöndurnar sem við seljum frá Terre de Bougies eru framleiddar sérstaklega fyrir sápugerð, kertagerð og snyrtivörur og því er öruggt að nota þær í sápugerð í réttu magni. Margar hreinar ilmkjarnaolíur eru hins vegar ertandi þegar þær komast í snertingu við húð og ætti því ekki að nota í sápugerð. Það eru þó einhverjar ilmkjarnaolíur sem má nota í sápugerð í réttu magni. Ef þið hafið áhuga á að nota hreinar ilmkjarnaolíur í ykkar sápur mælum við með því að þið lesið ykkur vel til um hvaða olíur eru öruggar og í hvaða magni.
Sápugerð er bæði skemmtileg og nytsamleg. Á síðunni er hægt að fá allt sem þarf til að búa til sápur og skrúbba til að nota heima, eða til að búa til fallegar heimagerðar gjafir. Við hvetjum ykkur til að prófa!
Leiðbeiningar:
- Vigtið það magn sem þarf og skerið í litla bita (1-2 cm) og setjið í hitaþolið ílát. Okkur finnst best að nota glerkönnur með handfangi, t.d. frá Pyrex.
- Hitið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Ef þið notið örbylgjuofn er mikilvægt að hita stutta stund í einu, u.þ.b. 30 sek. Takið þá sápuna út og hrærið. Endurtakið þetta þangað til sápan hefur bráðnað, u.þ.b. 55-65°C. Ef sápan er að mestu bráðin og aðeins nokkrir bitar eftir mælum við með að hita hana ekki meira, en hræra vel í sápunni. Þá ætti hitinn sem þegar er til staðar að bræða það sem eftir er. Mikilvægt er að ofhita sápuna ekki, þá verður hún erfið meðhöndlunar.
- Blandið í þeim ilmblöndum, litarefnum og öðru sem ykkur langar að bæta í eins og t.d. kaffi eða höfrum til að búa til skrúbba. Mikilvægt er að hræra vel. Leiðbeiningar um magn af ilmblöndu sem á að bæta við má finna í lýsingu hverrar ilmblöndu fyrir sig. Ef notuð eru íblöndunarefni eins og t.d. kaffi, sykur og hafrar þarf að passa upp á að sápan sé orðin nægilega köld áður en hellt er í mótin svo íblöndunarefnin haldist dreifð um sápustykkið en falli ekki öll til botns.
- Hellið í mót og leyfið að storkna nokkrar klst eða yfir nótt, fer eftir stærð íláts sem notað er sem mót. Þá er sápan tilbúin til notkunar. Gott er að pakka sápunni fljótlega eftir að hún er tilbúin, annars getur sápan dregið í sig raka úr umhverfinu og litlir dropar myndast á yfirborðinu. Það er í lagi ef það gerist, en sápan verður fallegri ef henni er pakkað stuttu eftir að hún er tilbúin. Við notum matarfilmu til að pakka okkar sápum.